Fundur um ferðamál

Þann 24. mars 2017 stóð ræðisskrifstofan fyrir fræðslufundi fyrir fulltrúa taílenska ferðamálayfirvalda, Tourism Authority of Thailand.  Fyrir nefndinni fór Charun Ohnmee frá skrifstofu TAT í Bangkok en einnig sótti fundinn Karuna  Hellstrom frá TAT  Stokkhólmi. Tilgangur fundarins var að upplýsa um skipulag ferðamála á Íslandi, sjálfbærni, markaðsmál og fleira auka þess að ræða möguleika á að fjölga ferðamönnum bæði frá Íslandi til Taílands og öfugt. Tveir fulltrúar Íslandsbanka, þeir Bjarnólfur Lárusson viðskiptastjóri og Elvar Orri Hreinsson sérfræðingur í greiningu kynntu efni nýútkominnar skýrslu bankans um ferðamál á Íslandi, fulltrúi ráðuneytis ferðamála, Jón Óskar Pétursson viðskiptafræðingur, sagði frá skipulagi ferðamála á Íslandi og Ársæll Harðarson var fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar og sagði frá þeim vettvangi sem og flugsamgöngum milli álfanna en hann er m.a. svæðisstjóri Icelandair fyrir Asíu. Ljósmynd: (f. v.) Sumitra   Asvaraks, Charun Ohnmee, Sarote Phornprapha og Karuna Hellström.

 

Nemendur í fjarnámi þreyta próf

Dagana 23. - 26. mars 2017 voru árleg háskólapróf haldin á ræðisskrifstofunni. Nemendur í fjarnámi við Ramkhamkaeng-háskólann í Taílandi sem búsettir eru hér á landi þreyttu þá próf í ýmsum greinum s.s. félagsfræði og stjórnmálafræði. Að þessu sinni voru nemendur tveir. Duangdao Chuklin second secretary í taílenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn kom til að leggja prófin fyrir með aðstoð Andreu Sompit Siengboon sem hefur veg og vanda af undirbúningi á Íslandi. Norðingaskóli lánaði skrifborð og stóla sem er mikils metið til að skapa nemendum sem bestar prófaðstæður. Ljósmynd: (t.v.) Andrea Sompit Siengboon og (t.h.) Duangdao Chuklin.

Jón Karl Helgason tekur við styrk til heimildarmyndar

Myndin Nýir Íslendingar styrkt

Aðalræðisskrifstofa Taílands í Reykjavík veitti Jóni Karli Helgasyni 100.000 kr. styrk í maí vegna heimildamyndar hans um taílenska fjölskyldu sem flutti til Íslands og settist þar að. Jón Karl hefur myndað atburði í lífi og starfi fjölskyldunnar í 12 ár samfleytt og fylgst með bæði erfiðleikum og framgangi hennar hér á landi. Inn í myndina fléttast löggjöf um útlendinga, viðhorf til innflytjenda á hverjum tíma og leggja sérfræðingar sitt til málanna s.s. Margrét Steinarsdóttir lögfræðingur á Mannréttindaskrifstofu Íslands. Frágangur myndarinnar er nú á síðustu metrunum og verður fróðlegt að sjá afraksturinn, bæði fyrir Taílendinga heima og heiman sem og Íslendinga. 

 

Keilufell 2, 111 Reykjavik - Sími 823 2676 / 571 0224 
amol@talnet.is