Bólusetningar og aðgát varðandi heilsu

Huga þarf að bólusetningum vegna ferða til Taílands með um 8 vikna fyrirvara. Bóka þarf tíma hjá þeim sem sjá um ferðamannabólusetningar á Íslandi. Þar meta fagaðilar hvaða bólusetningar eru nauðsynlegar hverjum og einum. Fer það eftir áfangastað og skilyrðum þar, heilsufari viðkomandi, fyrri bólusetningum og fleiru. Upplýsingar og ráðgjöf um heilsuvernd á ferðalögum er einnig að finna á vef Landlæknisembættisins. Nánari upplýsingar fást hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síma 585-1300, kl. 9-10 og 15-16. Til að fá hugmynd má sjá á danskri vefsíðu, með því að slá inn upplýsingar um þá ferð sem á að fara í, hvaða bólusetningum er mælt með. 

Tryggingar

Nauðsynlegt er að hafa viðeigandi ferðatryggingu. Læknisþjónusta Í Taílandi er mjög góð en getur reynst dýr og oft er greiðslu krafist áður en hún er veitt. Hafið neyðarnúmer og ljósrit af tryggingaskírteini eða staðfestingu á tryggingunni með í för í nokkrum eintökum og geymið á fleiri en einum stað. Hugið einnig að skilmálum um ferðarof og flutning heim. Geymið vandlega allar kvittanir þar til gengið hefur verið frá málum við tryggingafélag.

Vegabréf

Vegabréf þarf að vera gilt 6 mánuðum lengur en dvöl í Taílandi á að standa. Hafið með ykkur ljósrit af vegabréfi, myndasíðunni og síðunni með árituninni. Ágætt er að skrifa hjá sér eða setja inn í símann sinn nafn og símanúmer ræðismanna Íslands í Bangkok tapist vegabréf eða annarrar aðstoðar verði þörf. Sjá hnapp í vinstri dálki hér á síðunni. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir einnig upplýsingar og aðstoð.

Dvöl fram yfir leyfistíma - Overstay

Dveljið ekki lengur í Taílandi en þið hafið leyfi til samkvæmt stimpli sem þið fenguð í vegabréfið við komuna til landsins. Dagsektir eru um 500 Baht. Hægt er að greiða sektir á flugvellinum við brottför en ef um umtalsvert tímabil er að ræða, getur það haft í för með sér að komur viðkomandi til landsins verði takmarkaðar.

Fíkniefni - læsið farangri

Mjög hart er tekið á fíkniefnasmygli eða -vörslu í Taílandi, hvort sem viðkomandi á efnið eða flytur það fyrir annan, með eða án sinnar vitundar. Sjáið til þess að enginn óviðkomandi komist í farangur ykkar. Nánari upplýsingar hjá sendiráði Taílands í Oslo.

Góð ferðahandbók

Hafið með ykkur góða ferðahandbók. Þar eru upplýsingar um siði og venjur sem gott er að kynna sér fyrir brottför til að komast hjá óþarfa núningi á áfangastað. Margar hafa að geyma yfirgripsmiklar og hagnýtar upplýsingar um jafnvel litla staði utan alfaraleiðar. Lonely Planet útgáfan er sérlega notadrjúg fyrir þá sem ferðast á eigin vegum á ódýran máta.

Góður gátlisti og upplýsingar eru á vef utanríkisráðuneytisins.

Hagnýtar upplýsingar um banka, veður, þjórfé, umferð og margt fleira frá Úrvali-Útsýn

Keilufell 2, 111 Reykjavik - Sími 823 2676 / 571 0224 
amol@talnet.is